fbpx

Bláa Lónið hefur hlotið jafnlaunavottun Jafnréttisstofu. Úttekt á jafnlaunakerfi félagsins fór fram í desember síðastliðnum og stóðst Bláa Lónið hana með prýði þar sem engin frávik fundust. Í framhaldi af því hefur Jafnréttisstofa staðfest þá úttekt og þar með gefið Bláa Lóninu heimild til þess að nota jafnlaunamerkið. Jafnlaunavottun staðfestir að Bláa Lónið uppfyllir allar kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og að félagið fylgi jafnlaunastefnu sinni í einu og öllu um að greiða jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

Alþjóðlegi úttektaraðilinn BSI annaðist úttektina. Í tengslum við innleiðinguna var jafnframt framkvæmd jafnlaunagreining til að greina hvort munur væri á launum karla og kvenna sem gegna sambærilegum störfum. Niðurstaðan er sú að kynbundinn launamunur er hverfandi hjá Bláa Lóninu, eða aðeins um 0,76%.

Jafnlaunastefna Bláa Lónsins

Umfang
Umfang jafnlaunastefnunnar tekur til allra starfsmanna Bláa Lónsins.

Ábyrgð og hlutverk
Bláa Lónið starfar samkvæmt jafnlaunakerfi sem nær til allra starfsmanna. Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á framkvæmd og endurskoðun jafnlaunastefnu og að hún standist lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Framkvæmd og rýni
Bláa Lónið skuldbindur sig til þess að:
• Vinna stöðugt að umbótum í mannauðsmálum til að tryggja jafnrétti allra hjá fyrirtækinu.
• Taka á móti ábendingum og kvörtunum og nýta til uppbyggingar og þróunar á mannauðskerfi og jafnlaunaviðmiðum Bláa Lónsins.
• Framkvæma launagreiningu einu sinni á ári þar sem borin eru saman sömu störf eða jafnverðmæt störf og þannig kanna hvort að mælist munur á launum eftir kyni.
• Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti.
• Gera innri úttekt og halda rýni stjórnenda árlega.
• Kynna stefnuna fyrir starfsmönnum Bláa Lónsins.
• Stefnan sé aðgengileg á vefsíðu Bláa Lónsins.
• Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum sem hafa áhrif á jafnlaunakerfið og staðfesta árlega að þeim sé hlítt.

Jafnlaunastefna Bláa Lónsins var samþykkt af framkvæmdastjórn 19. október 2018