Bláa Lónið hlaut lögbundna jafnlaunavottun Jafnréttisstofu árið 2018 og hefur unnið samkvæmt vottuðu jafnlaunakerfi síðan. Markmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að auknu jafnrétti kynjanna. Vottunin staðfestir að Bláa Lónið uppfyllir allar kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 og að félagið fylgi jafnlaunastefnu sinni í einu og öllu um að greiða jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

Jafnlaunastefna Bláa Lónsins

Bláa Lónið leggur metnað sinn í að tryggja jafnrétti milli kynja og að hver starfsmaður sé metin á eigin forsendum óháð kyni, kynþætti eða öðrum órökstuddum viðmiðum þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar á vinnustaðnum. Jafnlaunamarkmið Bláa Lónsins er að tryggja að fyllsta jafnréttis sé gætt á milli kynja hjá Bláa Lóninu, leitast er við að öll kyn skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Jafnlaunastefna Bláa Lónsins er órjúfanlegur hluti af launastefnu félagsins.

Umfang
Umfang jafnlaunastefnunnar tekur til alls starfsfólks Bláa Lónsins.

Ábyrgð og hlutverk
Bláa Lónið starfar samkvæmt jafnlaunakerfi sem nær til alls starfsfólks. Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á framkvæmd og endurskoðun jafnlaunastefnu fyrirtækisins og að það standist lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.

Framkvæmd og rýni
Bláa Lónið skuldbindur sig til þess að:
• Vinna stöðugt að umbótum í mannauðsmálum til að tryggja jafnrétti allra hjá fyrirtækinu.
• Taka á móti ábendingum og kvörtunum og nýta til uppbyggingar og þróunar á mannauðskerfi og jafnlaunaviðmiðum Bláa Lónsins.
• Framkvæma launagreiningu einu sinni á ári þar sem borin eru saman sömu störf eða jafnverðmæt störf og þannig kanna hvort að mælist munur á launum eftir kyni.
• Bregðast við óútskýrðum launamun með stöðugum umbótum og eftirliti.
• Fylgja jafnlaunastaðli ÍST 85:2012
• Fylgja viðeigandi lagalegum kröfum sem hafa áhrif á jafnlaunakerfið og staðfesta árlega að þeim sé hlítt.

Samþykkt af framkvæmdastjórn, 16.nóvember 2021.