Öflugur hópur starfsfólks

Starfsfólk Bláa Lónsins er verðmætasta auðlind fyrirtækisins. Við aðstoðum fólk við að finna hæfileikum sínum farveg í starfi og veitum öllum tækifæri til að vaxa og ná markmiðum sínum.

Fjölbreytt starfsheiti

Við bjóðum upp á fjölbreyttan vinnustað fyrir fólk á öllum aldri, af ólíkum uppruna og í ólíkum störfum.

„Það eru forréttindi að fá að taka þátt í uppgangi fyrirtækisins. Starfið er afskaplega fjölbreytt og það er enginn dagur eins.“

Anna Karen Sigurjónsdóttir hóf störf hjá Bláa Lóninu sem starfsmaður í klefa árið 1996 og hefur gengið í hin ýmsu störf á löngum ferli sínum hjá Bláa Lóninu. Hún er í dag rekstrarstjóri Bláa Lónsins og einn af lykilstjórnendum fyrirtækisins.

„Það eru gerðar sömu kröfur til mín og allra annarra og ég hef sömu tækifæri og aðrir. Heyrnarleysið hefur engin áhrif.“

Unnur Pétursdóttir er matreiðslumaður og lykilstarfsmaður á veitingasviði Bláa Lónsins. Hún hefur verið heyrnarlaus frá fæðingu og fyrir skemmstu bar hún sigur úr býtum í árlegri matreiðslukeppni heyrnarlausra sem haldin er í Kaupmannahöfn ár hvert.

„Við fáum til okkar gesti frá öllum heimshornum og þeir hafa ólíkar þarfir. Þá getur verið gott að hafa innsýn og reynslu af öðrum menningarheimum.“

Marisa Sicat er frá Filippseyjum og fluttist til Íslands árið 1987 að loknu háskólanámi í Bandaríkjunum. Hún hefur starfað hjá Bláa Lóninu frá 2006, þar af sem verslunarstjóri síðan 2013. Marisa er sérstaklega fær í samskiptum við erlenda viðskiptavini.

„Töfrar Bláa Lónsins felast ekki síst í einstöku umhverfi. Við högum öllum byggingaráformum þannig að þau falli sem best inn í þetta umhverfi.“

Hartmann Kárason var einn af fyrstu starfsmönnum Bláa Lónsins og stóð vaktina í afgreiðslu og öryggisgæslu í nokkur ár. Í dag stýrir Hartmann öllum nýframkvæmdum við Bláa Lónið og einn af lykilstjórnendum fyrirtækisins.

Fræðsla og þjálfun

Við eflum og styðjum við faglega þróun starfsfólks okkar með því að fjárfesta stöðugt í fræðslu og þjálfun þess. Þannig getur starfsfólk okkar sem best sinnt verkefnum sínum, ráðið við þær breytingar sem kunna að verða og fengið tækifæri til að vaxa og þroskast í starfi.